1. desember 2023

Átt þú fasteign fyrir íbúa Grindavíkur?

Leitað er að íbúðum til leigu í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Enn er uppi talsverð óvissa í húsnæðismálum fjölda Grindvíkinga. Óljóst er hversu lengi íbúum verður óheimilt að dvelja á heimilum sínum og enn fjölmargar fjölskyldur í ótryggu húsnæði.

FSRE auglýsir um helgina eftir lausum íbúðum og sérbýlum til leigu til að minnsta kosti þriggja mánaða fyrir grindvískar fjölskyldur og einstaklinga. Eignirnar mega vera með eða án húsbúnaðar.

Leitað er að heilum eignum, íbúðum og sérbýli á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. Eignirnar verða í kjölfarið auglýstar til leigu eingöngu fyrir fólk með lögheimili í Grindavík.

SKRÁ EIGN 

Frumvarp innviðaráðherra um sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavík liggur nú fyrir Alþingi og er búist við að það verði að lögum í næstu viku. Í því kveður á um stuðning frá 150-252.000 krónur á mánuði til að standa straum af leigugreiðslum. Mun þessi stuðningur skipta miklu varðandi húsnæðisöryggi íbúa Grindavíkur.

Leigusamningar sem sem gerðir verða um eignir sem bjóðast með þessum hætti, verða gerðir á milli eiganda eignarinnar og leigutaka án aðkomu opinberra aðila. 

Nánari upplýsingar fást og skráning eigna fer fram á  island.is


Fréttalisti